Smjörkremsrósir

Kökur skreyttar með smjörkremsrósum geta verið einstaklega fallegar á veisluborði, sama hvert tilefnið er og að sama skapi nokkuð einfaldar í framkvæmd. Síðastliðin ár hef ég skreytt þó nokkuð margar smjörkremsrósakökur í allskyns litum, stærðum og gerðum. Hér að neðan langar mig að deila með ykkur minni aðferð.


Ég mæli með klassíska smjörkreminu mín. Það er ótrúlega einfalt, bragðgott og silkimjúkt.


Smjörkremsrósir á köku

  • Crumb Coat. Ég byrja á því að setja þunnt lag af smjörkremi á kökuna til að læsa niður allar kökumylsnur. Ég set svo kökuna inn í ísskáp í minnsta kosti klst til að kakan og kremið stífni, þá er auðveldara að vinna með kökuna.
  • Minna en meira. Ég set því næst smjörkrem í sprautupoka með fallegum rósastút, t.d. númer 852 frá Ateco. Ég set ekki mjög mikið af smjörkremi í einu í sprautupokann. Það er bæði erfiðara að sprauta jafnar rósir ef unnið er með stútfullan sprautupoka af smjörkremi. Svo er líka hætta á að við hitum smjörkremið allt með höndunum ef við erum að vinna með mikið smjörkrem í einu og þá gætu rósirnar lekið. Ég mæli því með að fylla bara um 1/3 af sprautupokanum í einu og við bætum svo bara við jafn óðum.
  • Kökubotnar = smjörkremsrósir. Mér finnst gott að miða við að gera jafn margar hæðir af smjörkremsrósum og fjöldi kökubotna. Ég t.d. nota yfirleitt þrjá kökubotna í hverja köku og þá finnst mér passa best að gera þrjár hæðir af smjörkremsrósum á hliðunum.
  • Byrja neðst og vinna sig upp. Ég byrja á því að sprauta fyrstu umferðina af smjörkremsrósum neðst á kökuna og fer allan hringinn. Ég reyni að sprauta rósirnar þétt upp við hvor aðra og passa að fyrsta umferðin sé alveg upp við kökuplattann svo það komi engin göt og það sjáist ekki í kökuna undir. Umferð tvö er svo sprautuð ofan á umferð eitt og ég passa að sú umferð fari aðeins yfir þá neðri því annars er hætta á að það komi gat á milli rósanna. Ég hliðra líka aðeins umferð tvö þannig að botninn á einni rós er á milli toppa tveggja rósa. Þriðja/seinasta umferðin á hlið kökunnar er svo sprautuð aðeins yfir neðri umferðina og stendur líka aðeins upp fyrir topp kökunnar.
  • Vinna sig inn að miðju. Á toppnum byrja ég að sprauta yst og vinn mig inn að miðju.
  • Allar eins. Til að fá jafna áferð á kökuna sprauta ég allar rósirnar í sömu átt og reyni að gera þær allar eins stórar.

Myndband


Categories:

Comments are closed