Peppa Pig afmæliskaka

Þessa köku gerði ég fyrir tveggja ára afmæli dóttur minnar sem elskar Peppu Pig. Í grunnin er kakan súkkulaðibotn með Dumle smjörkremi sem ég skreytti svo með Peppu Pig sem ég skar út úr sykurmassa og toppaði með lifandi blómum. Hér að neðan finnið þið uppskrift af kökunni og myndband af því þegar ég setti kökuna saman.


Súkkulaðibotn:

 • 200 g smjör
 • 3,5 dl sykur
 • 3 stk egg
 • 4,5 dl hveiti
 • 1,5 dl kakó
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 tsk salt
 • 2 dl súrmjólk
 • 1,5 dl kalt vatn

Aðferð:

 1. Smjör og sykur eru þeytt saman þar til létt og ljóst.
 2. Eggjunum er bætt út í, einu í einu, og þeytt vel saman á milli.
 3. Þurrefnunum er blandað saman í eina skál og því blauta er blandað saman í aðra skál.
 4. Helmingur þurrefnanna og helmingurinn af því blauta er bætt út í hrærivélaskálina og blandað rólega saman við smjörið, sykurinn og eggin.
 5. Restinni af þurrefnunum og því blauta er svo bætt út í og öllu blandað saman rólega.
 6. Deiginu er skipt upp í fjögur 15 cm kökuform og botnarnir bakaðir í 25-30 mínútur (misjafnt eftir ofnum) við 180°C.
 7. Botnarnir eru svo teknir úr ofninum og leyft að kólna áður en kremið er sett á.


Dumle smjörkrem:

 • 500 g smjör (mjúkt)
 • 500 g flórsykur
 • 2 pokar Dumle
 • 2-3 msk mjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk gróft salt

Aðferð:

 1. Setjið mjúkt smjörið í hrærivélaskál og þeytið vel þar til létt og ljóst
 2. Bætið út í flórsykrinum í tveim skrefum.
 3. Setjið Dumle í pott ásamt mjólk og bræðið við vægan hita. Takið af hellunni og setjið í skál og leyfið að kólna um stund.
 4. Þegar Dumleblandan hefur kólnað er henni helt út í smjörkremið í lítilli bunu og hrærivélin er látin ganga á sama tíma.
 5. Vanilludropum og salti er svo bætt út í smjörkremið undir lokinn.

Samsetning kökunnar – Sjá myndband!

ingibjorg

Comments are closed