Oreo Dripkaka

Oreokaka

Súkkulaðibotn:

 • 200 g smjör
 • 3,5 dl sykur
 • 3 stk egg
 • 4,5 dl hveiti
 • 1,5 dl kakó
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 tsk salt
 • 2 dl súrmjólk
 • 1,5 dl kalt vatn

Aðferð:

 1. Smjör og sykur eru þeytt saman þar til létt og ljóst.
 2. Eggjunum er bætt út í, einu í einu, og þeytt vel saman á milli.
 3. Þurrefnunum er blandað saman í eina skál og því blauta er blandað saman í aðra skál.
 4. Helmingur þurrefnanna og helmingurinn af því blauta er bætt út í hrærivélaskálina og blandað rólega saman við smjörið, sykurinn og eggin.
 5. Restinni af þurrefnunum og því blauta er svo bætt út í og öllu blandað saman rólega.
 6. Deiginu er skipt upp í fjögur 15 cm kökuform og botnarnir bakaðir í 25-30 mínútur (misjafnt eftir ofnum) við 180°C.
 7. Botnarnir eru svo teknir úr ofninum og leyft að kólna áður en kremið er sett á.


Oreo smjörkrem:

 • 1 pakki Oreo kexkökur (176 g)
 • 500 g mjúkt smjör
 • 500 g flórsykur
 • 100 g rjómi
 • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

 1. Oreo kexkökur eru settar í matvinnsluvél og muldar mjög smátt (á að líkjast sandi).
 2. Smjörið er sett í hrærivélaskál og þeytt þar til létt og ljóst.
 3. Rjómanum er næst bætt við smjörið og hann þeyttur vel saman við smjörið þar til smjörið og rjóminn eru orðin ein ljós og loftkennd heild.
 4. Flórsykrinum er þá bætt við í tveim skrefum og þeytt vel saman á milli.
 5. Að lokum er vanilludropunum og mulda Oreokexnu blandað saman við með sleif, þar til allt er komið saman.

Súkkulaði Ganache:

 • 1 bolli súkkulaði
 • 1/2 bolli rjómi

Aðferð:

 1. Súkkulaðið er skorið smátt.
 2. Rjóminn er hitaður í örbylgjuofni. Passa þarf að hann verði ekki of heitur þannig að hann flæði upp úr skálinni.
 3. Heitum rjómanum er helt yfir súkkulaðið og sett til hliðar í um 2 mínútur. Gott er að setja lítinn disk yfir skálina til að halda hitanum inni.
 4. Rjómanum er svo hrært saman við súkkulaðið sem bráðnar undan hitanum frá rjómanum.
 5. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg, má setja blönduna í smá stund inn í örbylgju aftur, alls ekki of lengi.
 6. Hræra saman þar til við fáum fallegt, gljáandi súkkulaðiganache.
 7. Núna er ganache-ið of heitt og þunnt til notkunar. Ganache-ið þarf að fá að standa á borði og kólna. Passa þarf að bíða ekki of lengi þannig að það verði mjög þykkt og erfitt að vinna með. Gott er að prófa að setja einn dropa á hátt glas og sjá hversu langt niður glasið það lekur áður en við byrjam að gera dripið á kökuna. Ef það rennur niður allt glasið er það of þunnt ennþá. Við viljum að það stoppi fyrir miðju ca.


Kakan sett saman:

 1. Smá smjörkrem er sett á kökudisk/kökuplatta og fyrsti kökubotninn er settur ofan á. Smjörkremið er notað til að festa kökubotninn við diskinn/plattann.
 2. Nú er öllum fjórum botnunum staflað og Oreosmjörkrem sett á milli allra botnanna. Þið setjið eins mikið smjörkrem á milli og ykkur finnst gott.
 3. Næst þarf að gera svokallað Crumb Coat á kökuna. Þá kakan hjúpuð með mjög þunnu lagi af smjörkreminu til að festa niður allar kökumylsnur sem eru lausar. Kakan er svo sett inn í kæli til að kólna.
 4. Þegar Crumb Coatið er orðið kalt og stíft er önnur umferð af smjörkremi sett á kökuna. Þá er sett þykkara lag af smjörkremi og það svo slétt með sköfu (sjá myndband hér að neðan). Kakan er svo aftur sett inn í kæli til að kólna.
 5. Þegar súkkulaði ganache-ið hefur kólnað og það tilbúið til notkunar er dripið gert á kökuna. Þá er smá súkkulaði ganache sett á brún kökunnar og leyft að leka niður hliðina. Þetta er svo gert allan hringinn. Eftir það er toppur kökunnar þakinn í ganache-i líka.
 6. Til að setja punktinn yfir i-ið er restin af Oreo smjörkreminu sett í sprautupoka með stút númer 21 frá Wilton og tvöfaldar smjörkremsrósir eru sprautaðar á topp kökunnar, allan hringinn.

Oreo kaka

Myndband:


ingibjorg

Comments are closed