Ljúffengar Ciabatta samlokur frá grunni

Ítalskt Ciabatta brauð – uppskrift:
300 g brauðhveiti
1 msk þurrger
1 tsk gróft salt
140 ml volgt vatn

Aðferð:
(1) Setjið volgt vatn og þurrger saman í hrærivélaskál og hærið örlítið saman með skeið. Setjið svo viskustykki yfir skálina og leyfið að sitja í um 10 mínútur eða þar til gerið hefur myndað loftbólur í vatninu.
(2) Bætið út í hveitinu og saltinu og hnoðið öllu saman með hrærivélakróknum.
(3) Stráið hveiti á borðið og hnoðið næst deigið vel saman í höndunum þar til þið fáið fallega mjúkt brauðdeig.
(4) Hitið ofninn á 30-50°C (lægstu styllingu), setjið deigið í hitaþolna skál og bleitið yfirborð deigsins örlítið með smá vatni. Setjið deigið inní ofninn og leyfið að hefast í um 1,5 klst. Á hálftíma fresti er gott að taka deigið út og toga það til og brjóta það saman frá enda yfir í miðju. Með þessu fáum við góða glúteinmyndun í brauðinu.
(5) Eftir 1,5 klst hefun er deigið tekið út og ofninn stylltur á 230°C blástur. Til að fá fallega skorpu á brauðið þarf að myndast gufa í ofninum. Setjið botnfylli af vatni í ofnskúffu og komið henni fyrir neðst í ofninum, vatnið gufar þá upp og gufa myndast inni í ofninum.
(6) Takið deigið úr skálinni og setjið á ofnplötu með bökunarpappír. Fletjið deigið út með höndunum, eins þunnt og þið viljið. Penslið næst brauðið með smá olíu og stráið grófu salti yfir.
(7) Bakið brauðið í um 20 mínútur eða þar til það er full bakað og fallega brúnt.

Álegg:
3-4 tilbúin kjúklingalæri/bringur
1-1,5 bolli spínat
1 krukka grænt pestó
1 lárpera
1 tómatur
1 Mozzarella ostakúla

Samsetning samloku:
(1) Skerið brauðið í tvennt eftir endilöngu.
(2) Skerið lárperu, tómat og Mozzarella ostinn í þunnar sneiðar.
(3) Skerið kjúklingalærin í þunna, langa bita.
(4) Raðið álegginu á: Smyrjið pestóinu á báða endana, setjið svo spínat, Mozzarella ost, tómata, lárperu og kjúkling á annan endann og lokið.
(5) Skerið samlokuna niður í eins stóra bita og þið kjósið.
(6) Njótið!

No responses yet

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *