Klassískt smjörkrem


Hráefni:

 • 500 g smjör (mjúkt)
 • 500 g flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar/vanillusykur

Aðferð:

 1. Setjið mjúkt smjörið í hrærivélaskál og þeytið þar til létt og ljóst (við byrjum á því að nota þeytarann á hrærivélina en skiptum svo yfir í hrærarann í skrefi 4). Gott er að gefa þeytingunni góðan tíma svo að smjörið verði sem ljósast á litinn. Stoppið hrærivélina 2-3x inn á milli og skafið niður hliðarnar á skálinni.
 2. Bætið flórsykrinum við smjörið í tveim skrefum og þeytið vel á milli.
 3. Bætið svo vanilludropum/vanillusykri saman við smjörkremið undir lokinn.
 4. Núna er smjörkremið mjög loftkennt og mikið af loftbólum í því eftir þeytinguna. Til að fá fallega og slétta áferð á smjörkremið skiptum við núna yfir í hrærarann á hrærivélinni og hrærum smjörkremið í um 2 mínútur.


Hvítt smjörkrem:

 • Það getur verið erfitt að ná smjörkremi alveg hvítu, þar sem smjörið er gult til að byrja með. Til að ná lit smjörsins sem ljósustum þarf að þeyta smjörið mjög lengi, allt upp í 10 mínútur. Því lengur sem við þeytum því meira loft safnast í smjörið og því ljósara verður það.
 • Mér finnst betra að nota vanillusykur frekar en vanilludropa þegar ég er að gera hvítt smjörkrem. Vanillusykurinn er hvítur og hefur því ekki áhrif á lit smjörkremsins, en vanilludroparnir geta litað kremið örlítið.
 • Ef kremið er ekki alveg nógu ljóst eftir þessi skref hér að ofan má bæta hvítum matarlit út í. Mér finnst ekkert sérlega gott bragð af hvítum matarlit og reyni því að halda honum í lágmarki.

Litað smjörkrem:

 • Smjörkrem má lita með hverskyns matarlitum (gellitum, vatnslitum, dufti…). Matarlitnum er bætt út í kremið alveg í lokinn, á eftir vanilludropunum/vanillusykrinum.
 • Gott er að byrja á litlu magni af lit í einu, því það er alltaf hægt að bæta við lit en ekki taka til baka.
 • Ef við ætlum t.d. að gera blátt smjörkrem er gott að þeyta smjörkremið mjög vel og ná því sem ljósustu áður en við bætum matarlitnum út í. Ef það er ekki gert og við bætum bláum matarlit út í gulleitt smjörkrem verður liturinn á smjörkreminu grænblár eða grænn, en ekki blár eins og við vildum, því við erum þá í raun að blanda saman bláum og gulum.
 • Einnig má nota ýmis matvæli til að lita smjörkrem í stað matarlitanna. T.d. má nota kakó til að fá brúnt smjörkrem, hindber til að fá bleikt smjörkrem og bláber til að fá fjólublátt smjörkrem. Þetta gefur smjörkreminu líka aukið bragð.

ingibjorg

Categories:

Comments are closed