17.júní kaka

Hæ hó og jibbí jei! Það er kominn 17.júní!

Í tilefni af þjóðhátíðardeginum skellti ég í þessa skemmtilegu köku í fánalitunum. Í grunninn eru kakan vanillubotn með smjörkremi, skreytt með hvítsúkkulaðidripi og þreföldum smjörkremsrósum í fánalitunum. Hér fyrir neðan má sjá hvernig ég gerði kökuna, skref fyrir skref.


Vanillubotnar – uppskrift:

 • 200 g smjör (mjúkt)
 • 275 g sykur
 • 4 stk egg
 • 250 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 2 tsk vanilludropar
 • 200 ml súrmjólk

Aðferð:

 1. Setjið smjör og sykur í hrærivélaskál og þeytið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli.
 3. Blandið saman þurrefnunum í eina skál og því blauta saman í aðra skál.
 4. Setjið helminginn af þurrefnunum og helminginn af þbí blauta út í hrærivélaskálina og hrærið rólega saman.
 5. Bætið svo restinni af þurrefnunum og því blauta saman við og hrærið öllu rólega saman.
 6. Skiptið deiginu jafnt í fjögur 15 cm kökuform og bakið í 25-30 mínútur við 170°C.
 7. Takið botnana út úr ofninum þegar þeir eru fullbakaðir og leyfið þeim að kólna áður en kremið er sett á.


Smjörkrem – uppskrift:

 • 500 g smjör (mjúkt)
 • 500 g flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar/vanillusykur
 • Matarlitir (blár, rauður og hvítur)

Aðferð:

 1. Þeytið smjör þar til létt og ljóst. Gott er að leyfa hrærivélinni að vinna í allt að 10 mínútur til að fá smjörið eins ljóst og hægt er.
 2. Bæti flórsykrinum saman við í tveim skrefum og hrærið á milli.
 3. Blandið vanilludropum/vanillusykri saman við.
 4. Skiptið smjörkreminu jafnt í þrjár skálar og litið hverja skál með matarlit (ein blá, ein rauð og ein hvít).


Hvítsúkkulaði ganache:

 • 1 bolli hvítt Candy Melts súkkulaðidropa
 • 1/2 bolli rjómi

Aðferð:

 1. Setjið Candy Melts súkkulaðidropa í skál.
 2. Setjið rjómann í aðra skál og hitið í örbylgjuofni. Passið að hann verði ekki of heitur svo að hann flæði ekki upp úr skálinni.
 3. Hellið heitum rjómanum er yfir súkkulaðið og setjið til hliðar í um 2 mínútur. Gott er að setja lítinn disk yfir skálina til að halda hitanum inni.
 4. Hrærið rjómanum svo saman við súkkulaðið sem bráðnar undan hitanum frá rjómanum. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg, má setja blönduna í smá stund inn í örbylgju aftur, alls ekki of lengi.
 5. Hrærið vel saman þar til við fáum fallegt, gljáandi hvítsúkkulaði ganache.
 6. Núna er ganache-ið of heitt og þunnt til notkunar. Ganache-ið þarf að fá að standa á borði og kólna. Passa þarf að bíða ekki of lengi þannig að það verði mjög þykkt og erfitt að vinna með. Gott er að prófa að setja einn dropa á hátt glas og sjá hversu langt niður glasið það lekur áður en við byrjum að gera dripið á kökuna. Ef það rennur niður allt glasið er það of þunnt ennþá. Við viljum að það stoppi fyrir miðju ca.


Samsetning köku:

 1. Setjið smá smjörkrem á miðjan kökudiskinn og fyrsta kökubotninn ofan á það. smjörkremið er sett undir til að líma botninn við plattann.
 2. Staflið svo kökubotnunum einum af öðrum og setjið smjörkrem á milli þeirra, fyrst rautt, svo blátt og svo hvítt smjörkrem.
 3. Gerið svokallað ”Crumb Coat” á kökuna. Þá er kakan þakin með þunnu lagi af hvíta smjörkreminu til að festa niður lausar kökumylsnur. Gott er að nota spatúlu og sköfu til að ná smjörkreminu sem sléttustu (sjá myndband hér að neðan). Kakan er svo sett inn í kæli til að kólna og stífna.
 4. Setjið annað þykkara lag af hvítu smjörkremi utan um kökuna og sléttið með sköfu. Notið svo rifflaða sköfu til að skafa kremið og mynda láréttar rendur í kökuna. Sprautið svo bláu og rauðu smjörkremi til skiptis inn í riflurnar og sléttið úr smjörkreminu með sléttri sköfu (sjá betur í myndbandi). Kakan er svo aftur sett inn í kæli.
 5. Þegar hvítsúkkulaði ganache-ið er tilbúið til notkunnar þá er dripið gert á kökuna. Það er gert með því að setja lítinn dropa af ganache-inu á brún kökunnar og leyfa honum að leka niður hliðina. Þetta er svo gert allan hringinn.
 6. Restin af smjörkreminu er svo sett í sprautupoka með stút númer 852 frá Ateco og þrefaldar smjökremsrósir eru sprautaðar á topp kökunnar, til skiptis rauðar, bláar og hvítar, allan hringinn.

Myndband:

ingibjorg

Comments are closed